Author: Stefanía Kristinsdóttir

Stuðningsnetið góð viðbót í heilbrigðisþjónustu

Góð stemming var á stofnfund Stuðningsnets sjúklingafélaganna  Farið var yfir aðdraganda verkefnisins og fundarstjóri Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, lýsti yfir ánægju með tilkomu Stuðningsnetsins og þá samstöðu sem ríkir um það.

Birgir Jakobsson Landlæknir flutti ávarp og undirstrikaði mikilvægi þess að sjúklingar væru virkir þátttakendur í eigin heilbrigðisþjónustu. Í starfi sínu væri heilbrigðisstarfsfólk, eðli málsins samkvæmt, oft uppteknara af vanheilslu en heilsu skjólstæðinga og það að fá stuðning jafningja væri ómetanlegt. Landlæknir bauðst til að kynna þjónustu Stuðningsnetsins fyrir heilbrigðisstofnunum og hvetja lækna og annað fagfólk til þess að benda sínum skjólstæðingum á að nýta sér þjónustu þess.  Birgir tók með sér nafnspjöld Stuðningsnetsins sem verður dreift til helstu heilbrigiðsstofnana, sjá mynd.

Fundurinn samþykkti samhljóða drög að samþykktum og eftirfarandi voru kjörnir í stjórn: Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sykursjúkra og Lauf-félags flogaveikra, Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, félagsráðgjafi hjá Alzheimersamtökunum og Stefanía G. Kristinsdóttir, fræðslu- og kynningafulltrúi hjá SÍBS.  Þrír varamenn voru kjörnir, þau: Brynjólfur Bjarnason, stjórnarmaður í Alzheimersamtökunum, Valgerður Hermannsdóttir, hjúkrunarfræðingur og varaformaður Hjartaheilla og Vilborg Jónsdóttir, stjórnarmaður í Parkinsonsamtökunum.

Í lok fundar afhentu þær Helga Kolbeinsdóttir og Sunna Brá Stefánsdóttir Krafti og Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi þakklætisvott fyrir þeirra framlag til Stuðningsnetsins. Gyðja Eyjólfsdóttir er höfundur “Handbókar fyrir stuðningsfulltrúa” og lagði drög að því faglega ferli sem liggur að baki stuðningsnets Krafts og var aðlagað að sjúklingahópum tengdum aðildarfélögum Stuðningsnetsins.  Ástrós Sigurðardóttir formaður Krafts og Gyða óskuðu stofnaðilum til hamingju og sögðu að það væri sönn ánægja og heiður að sjá hvernig barnið þeirra hefur náð að vaxa og ná til enn fleiri hópa í samfélaginu.

Stuðningsnetið

Stofnfundur Stuðningsnetsins 18. janúar

Stofnfundur félagsins “Stuðningsnets sjúklingafélaganna” verður haldinn fimmtudaginn 18. janúar kl. 18 í Hásal Setursins að Hátúni 10b (gengið inn hjá verslun).

Dagskrá stofnfundar er eftirfarandi: 

  1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
  2. Ávarp Landlæknis,  Birgis Jakobssonar
  3. Samþykktir bornar undir atkvæði 
  4. Kjör þriggja aðalmanna í stjórn og þriggja varamanna 
  5. Kjör skoðunarmanna reikninga 
  6. Þakklætisvottur til Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda

Um 30 stuðningsfulltrúar hafa nú lokið þjálfun en Í kjölfar stofnfundar verður jafningjafræðsla Stuðningsnetsins kynnt almenningi.

Allir velkomnir

 

Stuðningsnetið

Næsta námskeið fyrir stuðningsfulltrúa 9. og 10. janúar

Táknmynd með þremur aðilum sem sitja saman við borð og tala samanNámskeiðið fyrir verðandi stuðningsfulltrúa verður haldið í SÍBS húsinu að Síðumúla 6, 2. hæð, Reykjavík.

Námskeiðin eru án kostnaðar fyrir stuðningsfulltrúa en sjúklingafélag viðkomandi fulltrúa greiðir kostnaðinn. Umsjónaraðili Samstarfsnets sjúkrafélaganna, Helga Kolbeinsdóttir, skráir verðandi stuðningsfulltrúa á námskeiðin. Hún verður í sambandi við skráða þátttakendur í aðdraganda námskeiðanna.

Sjúklingafélögin munu einnig bjóða þátttakendum sem eru tendir þeirra félögum á upplýsingafund þar sem farið verður yfir þjónustu og starfsemi þeirra.

Stuðningsfulltrúar

Stuðningsnet sjúklingafélaganna byggt á reynslu Krafts

Skjáskot af heimasíðu KraftsFjölbreytt sjúklingafélög tóku sig saman í ársbyrjun 2017 um að mynda stuðningsnet um jafningjastuðning fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Hugmyndin að samstarfi sjúklingafélaganna kviknaði á námskeiði fyrir stuðningsfulltrúa hjá Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Félögin ákváðu í kjölfarið að vinna saman að því verkefni. Kraftur og höfundur handbókar, Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur veittu hópnum leyfi til að vinna með efnið og byggja á vinnuferlum Stuðningsnets Krafts auk þess sem Þorri Snæbjörnsson sálfræðingur vann með stýrihópi í innleiðingunni.

Samtals standa 16 félög með um 15.000 félagsmenn á bak við stuðningsnetið. Haldinn var vinnufundur 20. febrúar 2017 þar sem unnin var þarfagreining auk þess sem stýrihópur var skipaður til að hrinda verkefninu í framkvæmd, aðlaga verkferla og handbók Krafts að öðrum sjúklingahópum og skipuleggja fyrstu námskeið fyrir stuðningsfulltrúa. Í stýrihópnum sitja, Helga Kolbeinsdóttir frá MS-félaginu, Guðrún Bergman frá Hjartaheill, Stefanía Kristinsdóttur frá SÍBS og Ingibjörg Hjartardóttir frá Parkinsonsamtökum Íslands.

Opið er fyrir ný sjúklingafélög og sjúklingahópa að koma að stuðningsnetinu.

Stuðningsnetið