Stuðningsfulltrúar

Stuðningsfulltrúastarfið er sjálfboðaliðastarf. Hlutverk stuðningsfulltrúans er að styðja skjólstæðing og veita upplýsingar ef óskað er eftir því. Starf hans felst fyrst og fremst í tilfinningalegum stuðningi í gegnum virka hlustun, upplýsingaveitu, hluttekningu og nærveru, hvort sem er í gegnum síma, tölvu eða augliti til auglitis.  Hann þarf að hafa reynslu á sjúkdómnum og vera tilbúinn til að segja frá henni.

Heilbrigðisstarfsfólk getur gefið nýgreindum einstaklingi og aðstandendum ýmsar upplýsingar um sjúkdóma og meðferðir. Stundum er gott að geta talað við einhvern sem hefur gengið í gegnum það sama og maður stendur frammi fyrir.

Viltu gerast stuðningsfulltrúi?

Ef þú hefur greinst með sjúkdóm eða ert/varst aðstandandi sjúklings getur þú orðið stuðningsfulltrúi hjá einu af sjúklingafélagi Stuðningsnetsins.

Það er mikilvægt að þú sért að mestu búin(n) að vinna úr þeim tilfinningum sem sjúkdómurinn hefur í för með sér svo þú eigir auðveldara með að styðja aðra. Það er kostur ef þú ert hlýleg(ur), næm(ur) á líðan annarra, einlæg(ur), sveigjanleg(ur), dæmir ekki og átt auðvelt með að hlusta á aðra.

Hafir þú áhuga á að gerast stuðningsfulltrúi getur þú sótt um með því að fylla út umsókn hér að neðan. Í framhaldi af því munu umsjónaraðilar Stuðningsnetsins hafa samband við þig og þú munt eiga fund með því aðildarfélagi Stuðningsnetsins sem mun greiða fyrir þjálfun þína, til að kynnast starfsemi þess og þjónustu.  Ef niðurstaða ykkar er sú að þú sért tilbúin(n) til að gerast stuðningsfulltrúi þá verður þér boðið á stuðningsfulltrúanámskeið. Námskeiðið tekur tvö kvöld og þegar því er lokið getur þú hafið sjálfboðastarf sem stuðningsfulltrúi. 

Öllum stuðningsfulltrúum býðst einstaklingshandleiðsla frá umsjónaraðila Stuðningsnetsins og stuðningsfulltrúar sækja endurmenntun/hóphandleiðslu tvisvar á ári.