Góð stemming var á stofnfund Stuðningsnets sjúklingafélaganna  Farið var yfir aðdraganda verkefnisins og fundarstjóri Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, lýsti yfir ánægju með tilkomu Stuðningsnetsins og þá samstöðu sem ríkir um það.

Birgir Jakobsson Landlæknir flutti ávarp og undirstrikaði mikilvægi þess að sjúklingar væru virkir þátttakendur í eigin heilbrigðisþjónustu. Í starfi sínu væri heilbrigðisstarfsfólk, eðli málsins samkvæmt, oft uppteknara af vanheilslu en heilsu skjólstæðinga og það að fá stuðning jafningja væri ómetanlegt. Landlæknir bauðst til að kynna þjónustu Stuðningsnetsins fyrir heilbrigðisstofnunum og hvetja lækna og annað fagfólk til þess að benda sínum skjólstæðingum á að nýta sér þjónustu þess.  Birgir tók með sér nafnspjöld Stuðningsnetsins sem verður dreift til helstu heilbrigiðsstofnana, sjá mynd.

Fundurinn samþykkti samhljóða drög að samþykktum og eftirfarandi voru kjörnir í stjórn: Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sykursjúkra og Lauf-félags flogaveikra, Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, félagsráðgjafi hjá Alzheimersamtökunum og Stefanía G. Kristinsdóttir, fræðslu- og kynningafulltrúi hjá SÍBS.  Þrír varamenn voru kjörnir, þau: Brynjólfur Bjarnason, stjórnarmaður í Alzheimersamtökunum, Valgerður Hermannsdóttir, hjúkrunarfræðingur og varaformaður Hjartaheilla og Vilborg Jónsdóttir, stjórnarmaður í Parkinsonsamtökunum.

Í lok fundar afhentu þær Helga Kolbeinsdóttir og Sunna Brá Stefánsdóttir Krafti og Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi þakklætisvott fyrir þeirra framlag til Stuðningsnetsins. Gyðja Eyjólfsdóttir er höfundur “Handbókar fyrir stuðningsfulltrúa” og lagði drög að því faglega ferli sem liggur að baki stuðningsnets Krafts og var aðlagað að sjúklingahópum tengdum aðildarfélögum Stuðningsnetsins.  Ástrós Sigurðardóttir formaður Krafts og Gyða óskuðu stofnaðilum til hamingju og sögðu að það væri sönn ánægja og heiður að sjá hvernig barnið þeirra hefur náð að vaxa og ná til enn fleiri hópa í samfélaginu.